Meistaradeild KS í hestaíþróttum Reynslunni ríkari

  • 22. apríl 2024
  • Fréttir

Klara Sveinbjörnsdóttir og Glettir frá Þorkelshóli 2 unnu gæðingaskeiðið Mynd: Freydís Bergsdóttir

Viðtal við Klöru Sveinbjörnsdóttur sem vann gæðingaskeiðið í KS deildinni

Um helgina fór fram skeiðmót KS deildarinnar þar sem keppt var í gæðingaskeiði og 150 metra skeiði. Agnar Þór Magnússon vann 150 metra skeiðið á Kastori frá Garðshorni á Þelamörk og gæðingaskeiðið vann Klara Sveinbjörnsdóttir á Gletti frá Þorkelshóli. Blaðamaður hitti Klöru eftir skeiðið sem var að vonum ánægð með sigurinn. Aðspurð hvort hún hefði átt von á sigrinum svaraði hún því bæði já og nei.

„Ef Glettir yrði eins og hann er bestur þá já. Niðurtakan hefur oft reynst okkur erfið en ef hún tekst þá er hann frábær á skeiði. Ég held það hafi verið mjög gott að vera með reyndann skeiðhest en aðstæður voru erfiðar bæði völlurinn og veðrið,“ segir Klara en þau Glettir stefna á að mæta í skeiðið í gegnum höllina sem verður á lokamóti KS deildarinnar þann 2. maí.

Gefandi að vinna sem reiðkennari

Þetta er þriðja árið hennar Klöru í deildinni. Hún starfar sem reiðkennari við Háskólann á Hólum og líkar vel við starfið.

„Það er öðruvísi að vera svona mikið að kenna. Það hentar mér mjög vel í mínum aðstæðum akkúrat núna á meðan maður er að eignast börn. Gefandi en mig langar að þjálfa aðeins meira samt sem áður mjög skemmtilegt og maður verður reynslunni ríkari,“ bætir Klara við.

Klara með syni sínum Daníel eftir sigur í gæðingaskeiði

Eitt mót eftir í deildinni

Lokamót KS deildarinnar verður þann 2. maí í Svaðastaðahöllinni á Sauðárkróki. Keppt verður í tölti og skeiði en staðan í einstaklings- og liðakeppninni er jöfn og spennandi.

HÉR er hægt að sjá stöðuna í einstaklingskeppninni en í liðakeppninni er það lið Hrímnis/Hestkletts sem leiðir með 323,5 stig.

Staðan í liðakeppninni í KS deildinni fyrir lokamótið
  1. Hrímnir/Hestklettur 323,5
  2. Þúfur 318 stig
  3. Uppsteypa 274,5
  4. Storm Rider 241,5
  5. Stormhestar/Hestbak.is 228,5
  6. Íbishóll 201,5
  7. Dýraspítalinn Lögmannshlíð 150,5
  8. Staðarhof 116

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar