,,Sameiginlegt markmið allra að bæta íslenska hrossastofninn”

  • 1. júní 2020
  • Fréttir

Frá kynbótasýningu á Margreterhof, Tryggvi Björnsson sýnir Svan frá Kringeland mynd: Mette Lund Lindberg

Viðtal við Heimir Gunnarsson

Eins og Eiðfaxi fjallaði um í síðutu viku að þá hófust kynbótasýningar á meginlandi Evrópu nú í lok maí. Nú þegar þremur kynbótasýningum lokið einni í Þýskalandi og tveimur í Svíþjóð.
Af þessu tilefni tók Eiðfaxi viðtal við þrjá knapa á Þessum sýningum þá Erling Erlingsson, Tryggva Björnsson og Þórð Þorgeirsson. Í viðtalinu var m.a. komið inn á þeirra upplifun á þeim breytingum sem orðið hafa á sýningum hrossa í kynbótadómi.

Heimir Gunnarsson er alþjóðlegur kynbótadómari og starfar sem landsráðunautur í Svíþjóð hann var yfirdómari bæði á kynbótasýningu í Romme og Margreterhof en hvernig var hans upplifun af því að starfa á kynbótasýningum í kjölfar þeirra breytinga sem orðið hafa á dómaleiðaranum?

„Það er núna búið að dæma rétt um 100 hross hér í Svíþjóð eftir nýja dómaleiðaranum. Breytingarnar á leiðaranum eru í raun ekkert sérstaklega róttækar þegar upp er staðið og þegar á hólminn er komið. Við höfum haft nýja leiðarann við höndina við dómstörfin nú í vor, bæði í byggingardómum og eins í reiðdómum og vandað okkur við að fara eftir honum. Við erum einnig að vinna með nýtt dómblað sem mun taka smá tíma að átta sig á, líklega bæði fyrir dómara og hesteigendur, en þegar upp er staðið höfum við nú möguleika á að lýsa eiginleikunum mun ítarlegar en áður. Þetta er eitthvað sem ég hef trú á að muni nýtast vel í ræktunarstarfinu þegar fram líða stundir. Ef til vill verður hægt út frá þessum gögnum að reikna kynbótamat eða birta aðra tölfræðilega samantekt t.d. fyrir hálslengd, fótahæð, skrefstærð og fótaburð svo eitthvað sé nefnt og gefa þannig hryssueigendum mikilvægar upplýsingar við val á stóðhesti en eins gefur þetta kost á að lýsa betur hestgerðinni og vissum geðslagsþáttum. Það eru nokkuð hertar kröfur í vissum eiginleikum eða í það minnsta skýrari kröfur um hvað þarf að uppfylla til að hljóta ákveðnar einkunnir. Í flestum tilfellum eru þessar kröfur ekki nýjar af nálinni en þó eru þær skýrari núna en áður sem væntanlega mun verða til þess að samræmi í dómum verður enn betra. Í örfáum tilfellum hafa hestar sem hafa verið dæmdir áður lækkað í einkunn fyrir einhvern eða einhverja þætti í sköpulagi vegna nýja leiðarans og eins hefur það gerst í örfá skipti að einkunn fyrir háls, herðar og bóga, bak og lend eða samræmi hafi verið leiðrétt í reiðdómnum þegar fyrir liggur hvernig eiginleikinn nýtist hestinum í reið, ýmist til hækkunar eða lækkunar. Að sköpulagsdómurinn sé meira opinn í reið er eitthvað sem ég persónulega fagna enda er aðal markmið ræktunarinnar að hestarnir séu nýtilegir til reiðar og að þættir í sköpulaginu séu hestinum ekki til trafala í reið.“

Eru knapar að lenda í erfiðleikum við að framkvæma þau atriði sem beðið er um til úrvals einkunna eins og t.d. að losa um taum á tölti, sýna hægt tölt af feti eða þá mismunandi hraðastig á brokki?

„Enn sem komið er hef ég ekki orðið þess var að þessi atriði ein og sér séu að valda knöpunum erfiðleikum. Að mínu mati hefur orðið óþarflega mikil áhersla á þennan blessaða lausa taum á tölti í umræðunni. Það er ágætt að það komi fram að það er ekki verið að biðja um sýningu á slaktaumatölti heldur eingöngu að taumsamband sé rofið í örfáar sekúndur. Það er hinsvegar búið að herða kröfurnar frá því sem var til að hljóta níu í flestum eiginleikum. Til dæmis á tölti þá er meðal annars gerð sú krafa að hesturinn haldi uppi brjóstkassanum og herðunum, sé skrokkmjúkur, jafnvægisgóður og búi yfir fjaðurmagni til þess að hljóta einkunn upp á 9,0 eða hærra. Enda held ég að flestir séu því sammála að til þess að geta talist til úrvalstöltara og vera í flokki meðal bestu töltara hrossastofnsins þurfi gripurinn að búa yfir þessum eiginleikum. Á þeim hrossum sem hafa mætt til dóms hér í Svíþjóð í vor og hafa búið yfir þessum eiginleikum á tölti hefur það ekki virst vera erfitt að losa um tauminn. Við höfum eins séð þetta gert á allskonar hestum og þetta gefur ekki síst góðar upplýsingar um framhugsun hestsins og hugarfar. Það virðist hins vegar vera að með nýja leiðaranum eru sumar týpur sem hefðu líklega hlotið 8,0 fyrir tölt í fyrra að stoppa í 7,5 núna til dæmis vegna galla í líkamsbeytingu og sama er uppi á teningnum með einkunnir ofar í skalanum. Það hefur með öðrum orðum ekki gerst enn sem komið er að hestur fái ekki rétta einkunn eingöngu vegna þess að ekki var hægt að losa um tauminn. Það er þó mikilvægt að fara yfir þetta allt og meta í haust þegar sýningum ársins er lokið.
Hér í Svíþjóð munum við taka allar sýningar ársins upp á myndband og mér skilst að slíkt hið sama verði gert á Íslandi. Það verður því til mikið magn af myndefni og upplýsingum sem munu koma að gagni til þess að meta afrakstur þessa fyrsta sýningarárs með nýjum leiðara og vega og meta þær breytingar sem búið er að gera. Við verðum að horfa til framtíðar og vera óhrædd við að breyta en eins verðum við að vera tilbúin til að lagfæra það sem lagfæra þarf og stíga til baka ef þörf krefur. Sameiginlegt markmið okkar allra hlýtur fyrst og fremst að vera að halda áfram að bæta íslenska hrossastofninn hér eftir sem hingað til og það er afar mikilvægt að þær upplýsingar sem eru skjalfestar séu út frá hinu opinbera ræktunarmarkmiði eins réttar og kostur er.“

Við þökkum Heimi fyrir spjallið og óskum honum velfarnaðar í leik og starfi.

 

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar