Afrek áratugarins – Keppnisárið 2013

  • 4. október 2020
  • Fréttir

Jóhann R. Skúlason og Hnokki frá Fellskoti fóru mikinn á HM2013 og hlutu í einkunn 9,61 í úrslitum í tölti

Samkvæmt tímatali okkar Íslendinga erum við nú á öðrum áratugi 21. aldarinnar en hann hófst 1. janúar árið 2011 og lýkur 31.desember árið 2020.

Á þessum áratug hafa orðið miklar framfarir í reiðmennsku og hrossarækt og margt markvert hefur átt sér stað. Því er ekki úr vegi að rifja upp helstu afrek hvers árs og nú tökum við fyrir keppnishluta ársins 2013

Meðal helstu viðburða ársins 2013 má nefna Heimsmeistaramótið í Berlín, Íslandsmótið í Borgarnesi og Fjórðungsmót Vesturlands á Kaldármelum og Fjórðungsmót á Fornustekkum í Hornafirði.

Jakob Svavar Sigurðsson átti gott ár á keppnisbrautinni en hann varð m.a. fjórfaldur Íslandsmeistari er hann stóð efstur í fimmgangi, slaktaumatölti og samanlögðum fimmgangsgreinum á Al frá Lundum II og í fjórgangi á Eldi frá Köldukinn.
Þá kepptu þeir Alur á HM og urðu þar m.a. í öðru sæti í slaktaumatölti og samanlögðum fimmgangsgreinum. Kobbi var útnefndur íþróttaknapi ársins.

Jóhann R. Skúlason náði einstökum árangri í töltkeppni á HM þegar hann varð heimsmeistari á Hnokka frá Fellskoti í annað sinn með 9,61 í einkunn í úrslitum. Jóhann var útnefndur knapi ársins á uppskeruhátíð hestamanna.

Árni Björn varð Íslandsmeistari í tölti annað árið í röð á Stormi frá Herríðarhóli með einkunnina 8,89.

Bergþór Eggertsson varð heimsmeistari í 250 metra skeiði á Lótusi frá Aldenghoor fjórða skiptið í röð og hlaut hann verðlaun fyrir fyrirmyndar reiðmennsku (Feather Price verðlaun) á Heimsmeistaramótinu.

Bjarni Bjarnason varð íslandsmeistari í 100 metra skeiði á Heru frá Þóroddsstöðum á tímanum 7,79 sekúndum og varð það fyrsti titill þeirra af þremur í röð í þessari grein.

Ísólfur Líndal Þórisson reið Freyði frá Leysingjastöðum II til sigurs í B-flokki gæðinga á Fjórðungsmótinu á Kaldármelum og hlaut í einkunn 9,01. Ísólfur var útnefndur gæðingaknapi ársins.

Konráð Valur skaust upp á stjörnuhiminn þetta árið þegar hann varð tvöfaldur heimsmeistari ungmenna á HM á hryssunni Þórdísi frá Lækjarbotnum bæði í 250 og 100 metra skeiði. Hann var útnefndur efnilegasti knapinn þetta ár.

Sigurbjörn Bárðarson varð íslandsmeistari bæði í 150 og 250 metra skeiði. Í 150 metra skeiði reið hann Óðni frá Búðardal á tímanum 14,61 sekúndu og í 250 metra skeiði á Andra frá Lynghaga á 23,09 sekúndum.

Guðmundur Björgvinsson stóð efstur í einstaklingskeppni Meistaradeildarinnar og lið Topreitar/Ármót sigraði í liðakeppni.

Efri-Rauðalækur var valið keppnishestabú ársins. Helstu hross sem unnu til afreka þetta ár voru Hraunar, sem varð tvöfaldur heimsmeistari og tvöfaldur sænskur meistari ásamt knapa sínum Magnúsi Skúlasyni. Randalín, sem átti góðu gengi að fagna í tölti ásamt knapa sínum Bjarna Jónassyni. Jökull, sem átti besta tíma ársins á Íslandi í 250 metra skeiði (21,93) knapi á honum var Teitur Árnason. Af fleiri hrossum sem náðu góðum árangri má nefna: Rósalín, Öngul, Freyju, Ösp og Orku.

Of mikið væri að telja upp alla sigra ársins og biðjumst við velvirðingar ef einhver sérstök afrek vantar og tökum við ábendingum á eidfaxi@eidfaxi.is

Kynbótaárið 2011

Keppnisárið 2011

Kynbótaárið 2012

Keppnisárið 2012

 

 

 

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar