Á Kaffistofunni – „Þetta var ekki sigurstund“

  • 10. febrúar 2023
  • Hlaðvarp

Nýjast þátturinn af hlaðvarpsþættinum af Á Kaffistofunni kom út síðastliðið föstudagskvöld. Í þeim þætti ræðir Hjörvar Ágústsson við Árna Björn Pálsson sem er einn af fjölhæfustu og sigursælustu knöpum samtímans. Þeir fara vítt yfir sviðið í þættinum og úr verður fróðlegur, skemmtilegur og lærdómsríkur þáttur.

Einn af fyrstu stóru titlum Árna Björns var sigur í A-flokki gæðinga á Landsmóti árið 2008 þegar hann stóð efstur á Aris frá Akureyri. Við grípum niður í viðtalið þar sem Árni lýsir þessu augnabliki.

„Þetta er einn stærsti titill sem ég hef náð en ég get ekki sagt að hann hafi verið verðskuldaður. Því ég hefði örugglega ekki unnið nema af því það fór skeifa undan öðrum hesti sem stóð efstur og hefði unnið. Þetta var því ekki sigurstund að halda á stærsta titlinum, A-flokki gæðinga á Landsmóti og þetta skyldi atvikast svona. Það er hluti af keppninni og sigur er sigur og þeir eru mismunandi en ég upplifði mig ekki þarna sem sigurvegara. Þetta var frábær hestur hann Aris, undan Grun frá Oddhóli, sem er einnig faðir Ljúfs frá Torfunesi. Báðir miklir garpar og ég efast ekki um að Aris hefði verið betri hjá mér í dag þegar ég kann orðið meira.“

Við mælum með hlustun á þennan þátt sem aðra af Á Kaffistofunni en þá má nálgast á hlaðvarpsveitunni Spotify.

Nýjasta tölublað

Fleiri Hlaðvörp