Deildirnar, andlát og úlfar
Hinar ýmsu deildir hófu göngu sína og krýndu meistara í lok tímabilsins. Alls voru deildirnar tíu talsins, Meistaradeild Líflands í hestaíþróttum, Meistaradeild KS í hestaíþróttum, Áhugamannadeild Equsana, Suðurlandsdeildin, Vesturlandsdeildin, Uppsveitadeildin, 1. deildin í hestaíþróttum, Líflandsdeild Léttis, Meistaradeild Líflands og æskunnar og Meistaradeild Ungmenna.
World Toelt í Danmörku var aflýst vegna dræmrar þátttöku en viðburðurinn hafði notið mikill vinsælda á árum áður.
Eyja.net í samstarfi með Eiðfaxa fór af stað með mótaröðin Viking Masters en mótaröðin fór fram í Þýskalandi í janúar, febrúar og mars. Naut hún mikilla vinsælda og heldur áfram göngu sinni á næsta ári.
Menntaráðstefna LH og Horses of Iceland var haldin í byrjun árs.
Sorgarfréttir bárust frá Svíþjóð í janúar þegar hinn þekkti hestamaður, Vignir Jónasson, lést af slysförum einungis 52 ára gamall.
Öryggisnefnd LH fannst vanta umræðu og vitundarvakningu hvað varðar öryggi reiðtygja og hvernig hestafólk gæti sjálft verið vakandi fyrir þessum atriðum og lét útbúa myndband. Í mars kynnti öryggisnefnd LH drög að viðbragðsáætlun vegna slysa á mótsstað.
Fulltrúaþing FEIF var haldið í byrjun febrúar og voru teknar þar hinar ýmsu ákvarðanir er tengjast íslandshestamennskunni. Eitt af því var að samþykkja Rúmeníu sem aðildarland að FEIF. Æskulýðsbikar FEIF fór til Lúxemborgar og var Lena Maxheimer valin reiðkennari ársins hjá FEIF. Mikil umræða fyrir þingið og á þinginu sjálfu varð um tillögu sem lá fyrir um að láta allar einkunnir dómara gilda í íþróttakeppni. Fór svo að tillagan var felld.
Landssamband hestamannafélaga fékk úthlutað 9.338.000 krónur úr Afrekssjóði ÍSÍ.
Smáforritið HorseDay kynnti nýja uppfærslu. Hóf forritið birtingu mótaupplýsinga og tók þar við mótavirknina sem áður hafði verið í LH Kappa smáforritinu.
Úlfahjarðir komust í fréttirnar en úlfum hefur fjölgað jafnt og þétt í Evrópu á síðastliðnum árum og áratugum og eru orðnir mikil ógn við landbúnað víða í álfunni.
Í febrúar hélt LH knapafund fyrir keppendur og mótshaldara. Farið var yfir reglur mótahaldsins sem myndu gilda árið 2024, breytingar sem höfðu átt sér stað, reglur fyrir Landsmótsúrtökur og ýmislegt gagnlegt tengt mótahaldinu. Farið var ítarlega yfir framkvæmd kappreiða og í kjölfarið sendi stjórn HÍDÍ ásamt keppnisnefnd LH fram ítarefni um framkvæmd skeiðgreina.
Deildarfundur búgreinadeildar hrossabænda Bændasamtaka Íslands var haldinn 12. febrúar. Tveir nýjir stjórnarmenn voru kosnir á fundinum þeir Agnar Þór Magnússon og Jón Vilmundarson.
Heiðrún Sigurðardóttir, doktorsnemi við Landbúnaðarháskóla Ísland og sænska Landbúnaðarháskólann, birti niðurstöður nýrrar rannsóknar á íslenska hestinum þar sem ný gen voru uppgötvuð í tengslum við skeiðhæfni íslenskra hrossa.
RML auglýsti eftir ráðunaut á hrossaræktarsviði.
Ástralir völdu úrtakshóp sinn fyrir Heimsmeistaramótið í Sviss á næsta ári en það verður í fyrsta sinn sem Ástralir keppa á Heimsmeistaramóti íslenska hestsins.
50 ára afmæli Félags Tamningamanna var haldið hátíðlegt laugardaginn 17.febrúar í reiðhöllinni í Fáki. Trausta Þór var afhent gullmerki Félags Tamningamanna á hátíðinni
Kosið var um nýjan formann Bændasamtakanna í byrjun mars. Trausti Hjálmarsson, sauðfjárbóndi og hrossaræktandi í Austurhlíð, var kjörinn nýr formaður Bændasamtakanna.
Ný vefsíða, IceFoal, sem hönnuð er til að halda utan um unghrossasýningar var sett í loftið.
Í byrjun mars var ákvörðun tekin um val kynbótahrossa á Landsmót en sami fjöldi var og áður en eingöngu stuðst við aðaleinkunn.
Tilkynnt var að hrossaræktarbúið Berg hefði átt að vera meðal tilnefndra ræktunarbúa fyrir árið 2023.
RVK Studios auglýsti eftir hrossum til þátttöku í kvikmyndaverkefni í byrjun árs og í mars eftir hestasveini. Í lok mars fór myndband eins og sinueldur um netheima sem vakti hörð viðbrögð þeirra sem þau sáu. Heimildir Eiðfaxa bentu til að um erlenda aðila væri að ræða og hestarnir hafi verið partur af kvikmyndaverkefni. MAST stöðvaði tímabundið þjálfun hestanna við kvikmyndaverkefnið.
Undirbúningur fyrir Landsmót hestamanna í Reykjavík var í fullum gangi. Í mars var birt drög að dagskrá mótsins en Landsmótið hlaut einnig styrk frá barna- og menntamálaráðuneytinu í mars.
Eiðfaxi Vetur kom út
Tímaritið var stútfullt af alls konar efni. Lesendur fengu að kynnast ferðalagi Söru Sigurbjörnsdóttur og Flóka frá Oddhóli sem afrekuðu það að vinna heimsmeistaratitil í fimmgangi, titil sem hafði ekki farið til Íslands í 16 ár. Hestamannafélagið Sörli varð 80 ára á þessu ári og fengu lesendur smá innsýn inn í starfsemi félagsins sem er í mikilli sókn. Hinrik Bragason er flestum hestamönnum kunnur og hefur margann gæðinginn setið. Hann fór með lesendur aftur í tímann þar sem hann rifjaði upp gamla tíma og sögur um gamlar hetjur. Minnst var Vignis Jónassonar og Loka frá Selfossi. Niðustöður Sigurðar Antons Péturssonar sem rannsakaði frjósemi íslenskra hrossa voru kynntar og einnig var hægt að lesa ferðasögu Huldu Maríu Sveinbjörnsdóttur sem ferðaðist til Ameríku til að kynna sér aðrar reiðmennskuhefðir.
Mest lesnu fréttir á vefnum voru eftirfarandi:
- Vignir Jónasson látinn
- Vignir Jónasson 1971-2024
- Dæmt í máli Jóhanns Rúnars gegn LH
- „Þeir eru ekki að fara koma saman aftur“
- Flutt að Sandhóli í Ölfusi
- Bein útsending frá Suðurlandsdeildinni
- Ráslisti fyrir fjórganginn í Meistaradeildinni
- Bein útsending frá Suðurlandsdeild SS
- „Mér þykir vænt um Skagfirðinga“
- Eru keppnisreglur LH/FEIF öðruvísi fyrir útvalda?