Tippari vikunnar „Indriði í Grafarkoti fer í Liverpoolbolinn öfugan áður en hann kemur sér fyrir í sófanum“

  • 20. maí 2023
  • Fréttir
Tippari vikunnar er Jón Finnur Hansson

Þá er komið að þrítugustu og sjöundu umferð Tippara vikunnar í boði Remax fasteignasölu.

Í síðustu umferð var það Lárus Ástmar Hannesson sem var með fjóra rétta.

Tippari vikunnar er Jón Finnur Hansson kennari.

 

Hef fylgst með enska boltanum í 46 ár og haldið alltaf með sama liðinu, sem er að sjálfssögðu besta liðið West Bromwich Albion. Jájá það verður einhver að halda með Hvöt á Blönduósi (litlu liðunum). Öruggast væri velja stærstu og ríkustu félögin til að halda með því þar eru peningarnir, en einhver verður að halda með þeim sem minna mega sín og eiga ekki digra sjóði til að kaupa sér bestu leikmennina.
Var reyndar einu sinni hætt kominn er heitur Man Utd aðdáandi dróg mig á leik á Blásteini er Man Utd og WBA voru að keppa. Þrjátíu sjóðheitir Utd fylgjendur og einn West Bromwich gaur. Leikurinn fór 4-4 og fagnaði ég alltaf gífurlega hverju marki, en WBA jafnaði alltaf leikinn. Munaði litlu að það hefði verið minn síðasti dagur á þessari jörð (já Utd eru ruddar) en mikið var þetta gaman (eftir á).
Hef þó álíka mikið vit á enska boltanum og hestum segja bestu vinirnir mínir og þeir ýkja ekki.

 

 

Tottenham 1–2 Brentford
Adam frá Meðalfelli (Kane) laumar sér víða og líka á milli varnarmanna Brentford og nær að klóra í bakkann fyrir Spurs, en Brentford piltar eru heitir þessa dagana eins og Fróði frá Flugumýri og sigla heim með stigin þrjú. Danska spægipylsan Jensen mun skora fyrir Brentford ásamt Wissa.

Bournemouth 1–2 Man Utd
Solanke mun lauma honum framhjá Stíganda frá Sauðárkróki (De Gea) sem er staður á línunni en ef Rashford verður orðinn góður í tánni og spilar mun hann skora, því hann er Otur þeirra Utd manna, með kraft og snerpu, en ef ekki þá þurfa fíludúddarnir þeir Martial og Bruno, sem eru Gög og Gokke fyrir dómara leiksins, pota honum inn eftir að hafa vælt og skælt svo jafnvel hörðustu Utd menn skammast sín.

Fulham 1–1 Crystal Palace
Nágrannaslagur sem er eins og hestaat á milli tveggja gamalla úreltra stóðhesta og munu þeir sættast á jafntefli svo enginn fari súr á barinn, eða verði barinn. Eze skorar fyrir Kristaldrengina og Vinicius laumar honum fram hjá Johnstone markverði Palace (eða heitir hann Flintstone – hann var aðal markvörður WBA áður en Palace keypti hann í fyrra).

Liverpool 2–1 Aston Villa
Indriði í Grafarkoti fer í Liverpoolbolinn öfugan áður en hann kemur sér fyrir í sófanum til að horfa en Liverpool menn og Hólmsteinn fótaburður lifa ennþá í voninni að Nunez eigi sendingu á samherja eða hitti markið. Það mun muna öllu að Diaz er farinn að spila fyrir púllara og splundar vörn Aston Villa og gefur hinum framherjunum pláss og tíma. Aston Villa mun þó skora því Van Dijk er álíka hægfara og hestur að draga plóg. Salah setur tvö því hann verður nýklipptur og enginn í Villa þekkir hann en Watkins stelur svo boltanum af Trent og sólar Alisson sem dettur um skeggið á sér sem sprettur hraðar en arfinn í skítaþrónni.

Wolverhampton 1–1 Everton
Álíka erfitt að segja til um þessi úrslit eins og að finna gæðingsefni í stóðréttunum. Liðin sættast á jafntefli í þetta skiptið en það eru Calvert-Lewin sem skorar fyrir Everton og Ruben Neves skorar sleggjumark fyrir Úlfana svo Pickford mun ekki bjóða honum í picnic (lautarferð) að leik loknum.

Nottingham Forest 1–1 Arsenal
Hulda Geirs setti á laggirnar þvottahús í vetur, enda gengi skyttanna með ólíkindum, en þar sem lykilleikmenn skyttanna eru ekki með þá getur hún ekki mannað laugardagsopnun þvottahúsins svo þessi leikur getur farið í allar áttir eins og Blupið í íslenskri hrossarækt. En Forest ætlar að bjarga sér frá falli á lokasprettinum og mun því keyra á laskað lið skyttanna. Gustur frá Hóli (Trossard) mun skora fyrir Arsenal en Gustur frá Grund (Gibbs-White) stangar hann inn fyrir Forest eftir langt innkast.

West Ham 1–0 Leeds
Hamrarnir eru með mörg járn í eldinum þessa stundina svo Moyes veit ekki hvaða stóðhest (leikmenn) á að velja í leikinn svo þeir geta verið annars hugar í þessum leik. En vörnin hjá Leeds er álíka gisin og faxið á Ófeigi svo það lekur inn eitt mark í baráttuleik á miðjunni. Rice er að reyna að heilla Arsenal menn og heimtar að sjálfsmark Leeds verði skráð á sig.

Brighton 4–1 Southampton
Búið er að panta geldingu fyrir stóðhestana í Southampton og Rósi mun hafa gallsúra eistnasúpu á næsta þorrablóti. Fyrir Brighton munu Piltur frá Sperli (Mitoma), Kjarkur frá Skarði (Welbeck) og að sjálfsögðu mun Mac Allister smyrja honum upp í hornið. Kjerúlf (Ward-Prowse) mun lauma honum inn úr aukaspyrnu eða víti til að gleðja Rósa.

Man City 2–0 Chelsea
Að vera með Orra (Kevin De Bruyne) í liðinu sínu gerir gæfumuninn og sérstaklega þegar hlaupagikkurinn Nös frá Urriðavatni (Haaland) fær boltann í hausinn eða hófana í vítateignum þá er erfitt að mattsa það. Chelsea liðið spilar núna eins og efnilegir ungfolar sem er sleppt út á vorin, vita ekkert hvað þeir eiga að gera með tippið (boltann), hlaupa út um allt og riðlast á öllu, en stundum valda þeir usla með óvæntum folöldum (mörkum). Haaland og Marenskakan sjá um mörkin hjá City sem spilar upp á þægilegan sigur.

Newcastle 3–1 Leicester
Hlutabréfin hríðfalla í Leicester eins og í stóðhestum Limsfélagsins, enda eru leikmenn Leicester jafn áhugalausir að mæta í vinnuna og þeir. Wilson skorar tvö fyrir Kastaladrengina og hinn sænski Ísak, sem minnir á háfættan vöðvalausan ungfola, mun hlaupa alla af sér og skora eitt. Gamli West Bromwichgaurinn Barnes rifjar upp gamla takta og potar boltanum inn fyrir marklínuna fyrir Leicester.

 

 

Staðan:

Ingibjörg Guðmundsdóttir 7 réttir

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar