Hin hliðin – Lárus Ástmar Hannesson
Hin hliðin heldur áfram hér á Eiðfaxa þar sem við fáum að kynnast nýjum hliðum á hestafólki um land allt.
Að þessu sinni er það fyrrverandi formaður LH, Lárus Ástmar Hannesson sem situr fyrir svörum og sýnir á sér hina hliðina.
Fullt nafn: Lárus Ástmar Hannesson
Gælunafn: Elli Sig var með námskeið hér í Hólminum 1983. Ég var í námi á Hólum og kom heim um vorið með aflitaða tvo flekki í hausnum og permanett sem þá var móðins. Listaverkið hafði Kolla hárgreiðslumeistar á Hólum skapað eftir minni beiðni. Með á námskeiðinu var Gunnar Sturluson núverandi formaður Feif en hann vann þá sem aðstoðarkokkur á Hótel Stykkishólmi. Í loka sýningunni riðum við félagarnir í röð og var Gunni á undan mér. Elli var að kynna mannskapinn og sagði: Þarna koma þeir Gunni kokkur og Lalli Lokkur. Síðan festist við mig Lalli Lokkur og hef ég lagt mig fram um að halda því góða gælunafni við. Ég hef almennt mjög gaman af gælunöfnum.
Starf: Grunnskólakennari
Aldur: 54 ára
Stjörnumerki: Krabbi
Blóðflokkur: Vinstri grænt blóð (er að verða algengasti flokkurinn)
Skónúmer: 41 á góðum degi
Hjúskaparstaða: Giftur Maríu Ölmu Valdimarsdóttur og eigum við fjögur ótrúlega þæg og yndisleg börn. Öll föðurbetrungar.
Uppáhalds drykkur: Neskaffi í hesthúsunum
Uppáhalds matur: Svið með markinu sneitt framan og biti aftan bæði. Sviðið af pabba.
Uppáhalds matsölustaður: Eldhúsið heima, gott og ódýrt.
Hvernig bíl áttu: Þrjá eðal bíla. Skoda, Yaris og Patrol.
Uppáhalds sjónvarpsþáttur: Körfuboltakvöld.
Uppáhalds leikari: Ólafur Darri. Þið verðið að horfa á þetta atriði með honum. Það er óborganlegt. Það er tekið í gamla Apotekinu í Hólminum og er úr myndinni “The secret life of Walter Mitty” með Ben Stiller. https://www.youtube.com/watch?v=Yo3TBknT58A
Uppáhalds Íslenski tónlistarmaðurinn: Raggi Bjarna var og er bestur.
Uppáhalds erlendi tónlistarmaðurinn: Presley og Pavarotti. Legg þessa kappa að jöfnu.
Uppáhalds lag: My way
Fyndnasti Íslendingurinn: Held það sé Smári Adólfs hann er öðruvísi uppistandari en allir aðrir og með nýtt program á hverjum degi.
Hvað viltu í bragðarefinn þinn: Borða ekki bragðaref. Er á Ketó.
Þín fyrirmynd: Allir menn og konur sem taka sig ekki of hátíðlega. Eru heiðarleg og næra umhverfi sitt með jákvæðni og léttleika.
Mest óþolandi keppandi sem þú hefur mætt: Dóri rauði frá Þverholtum á Kaldármelum. Vann mig alltaf ár eftir ár. En mér þykir samt voðalega vænt um Dóra.
Sætasti sigurinn: Þeir eru nokkrir en sá sætasti á eftir að koma. Ég er nefnilega með áætlun um að vinna Ístaðið (A- flokkurinn hjá Snæfellingi) einu sinni enn og hafa þá unnið hann 10 sinnum. Það verður sko sætur sigur.
Mestu vonbrigðin: Hafa ekki unnið A- flokkinn á fjórðungsmótinu árið 1997. Ég varð í öðru sæti á Nasa frá Bjarnarhöfn og kempan Sveinn Ragnarson á Brynjari frá Árgerði vann.
Uppáhalds lið í íslenska boltanum: Meistaraflokkur Snæfells í körfubolta, Kvennaliðið.
Uppáhalds lið í enska boltanum: Liverpool
Ef þú fengir að eiga einn hest, lífs eða liðinn, hvern myndir þú velja og af hverju: Úbbs…. Ætli ég myndi ekki velja Álfaklett svo ég gæti strax á þessu ári unnið Ístaðið í 10. sinn.
Efnilegasti hestamaður/kona landsins: Ég miða við knapa yngri en 20 ára þó svo Magnús heitinn Jónsson (Méla Mangi) hafi sagt um mig að ég væri einn efnilegasti knapi vesturlands. Ég var þá 36 ára. En þeir eru margir efnilegir en ég held með Hörpu Dögg Heiðarsdóttur í Grundarfirði.
Fallegasti hestamaður/kona á Íslandi: Það er alltaf stórbrotin sjón að sjá Óla í Skalla ríða með þrjá til reiðar á milli hverfa á Reykjavíkursvæðinu á laugardags morgun kl. 10:00. Það er tignarleg sjón skal ég segja þér. Svo er hann svo líkur Grétari Örvars einnig söngröddin.
Besti knapi frá upphafi: Það finnst mér vera Sigurður Sigurðsson. Hann hefur náð árangri sem verður líklega aldrei toppaður. Hefur unnið B- flokkinn á landsmóti þrisvar sinnum og A- flokkin á landsmótum einu sinni.
Mesti gæðingur allra tíma að þínu mati: Nú ætla ég að fara í Nostradamusar fötin. Ég held að Pensill frá Hvolsvelli eigi eftir að fara í einkunn sem mun vekja athygli. Hann fer yfir 9 fyrir hæfileika og svo er hann með 8,90 fyrir byggingu. Stórglæsilegur afkasta gæðingur með trausta og góða skapgerð. Svo er bara að sjá hversu sannspár ég verð. Ég spáði því einmitt að Álfaklettur færi yfir 9 fyrir hæfileika og það gekk eftir.
Besti hestur sem þú hefur prófað: SE2009110329 Viking från Österåker er klárlega besti hestur sem ég hef prófað. Mikið viljugur, endalaust rými, mýkt í sérflokki og vel aðskildar gangtegundir. Hann er með 8,35 fyrir byggingu og 9,07 fyrir hæfileika. Kárinn er líka frábærlega vel taminn og þjálfaður af Vigni Jónassyni sem bauð mér á bak á gæðingnum haustið 2019.
Uppáhalds staður á Íslandi: Þeir eru tveir. Uppá Súgandisey og horfa yfir bæinn minn Stykkishólm og á stéttinni fyrir utan hesthúsið okkar í Grundarfirði með neskaffi með rjómadufti með Kirkjufellið í sjónlínu.
Hvað er það síðasta sem þú gerir áður en þú ferð að sofa: Les eitthvað uppbyggilegt og skemmtilegt. Núna er ég að lesa Tengdadóttirina eftir Guðrúnu frá Lundi.
Fyrir utan hestamennsku, fylgist þú með öðrum íþróttum: Já körfuboltanum á Íslandi.
Í hverju varstu lélegastur/lélegust í skóla: Öllu því sem ég náði ekki að fá einhvern áhuga á en það var mismunandi eftir kennurum og stemmingu.
Í hverju varstu bestur/best í skóla: Yfirleitt ágætur í stærðfræði og íþróttum.
Vandræðalegasta augnablik: Þegar ég gleymdi textanum í laginu sem ég var að syngja í mínu eigin brúðkaupi. Það reddaðist eins og flest.
Hvaða þrjá hestamenn tækir þú með þér á eyðieyju: Ég verð að taka fleiri en þrjá. Ég tæki Eystein Leifs (þó hann hafi ekki viljað taka mig), Sindra Sig og Smára Adólfs. Það verður ekkert smá fjör. Svo tæki ég vin minn Óla Þóris í Miðkoti svo við hinir færum okkur ekki að voða og að lokum myndi ég finna Robinson Crusoe hann er reynslu bolti í þessum eyði eyju bransa og kæmi að gagni.
Sturluð staðreynd um sjálfan þig: Þegar við Eystein Leifsson vorum svangir í partýi. Fundum ekkert að éta annað en niðurskorinn hákarl í fristikistunni. Við ákváðum að þýða þennan kæsta hákarl í örbylgjuofni. Líklega var það árið 1991. Það var svakalegt. Settum á 8 mínútur (kunnum ekkert á þessar græjur) og fórum svo inní stofu. Je minn eini, lyktin sem kom. Það vildi til að þetta var ekki heima hjá okkur heldur í einhverju húsi í Breiðholtinu þar sem við vorum í partýi. Okkur var vísað út. Heyrði seinna að saumaklúbburinn sem húsmóðirin ætlaði að halda á miðvikudeginum á eftir hafi verið frestað vegna ólyktar í húsinu. Veit ekki hvort það er rétt. Staðreyndin er ekki síst að ef maður síður kæstan hákarl þá verður hann glær í útliti. Þá vitið þið það.
Hvaða hestamaður hefur komið þér mest á óvart eftir að þú kynntist honum/henni og af hverju: Óli Þóris í Miðkoti. Ég hélt hann væri alveg agalega alvarlegur og þungur. Svo er hann bara þræl léttur og hress. Pott þéttur félagsmálamaður og félagi.
Ef þú fengir eina spurningu til að spyrja hvern sem er, hver yrði spurningin og hvern myndirðu spyrja: Ég myndi spyrja Mahatma Gandhi hvort hann myndi haga einhverju öðruvísi í sinni baráttu ef hann þyrfti að standa í þessu aftur.
Ég skora á Ólaf Þórisson í Miðkoti
Hin hliðin – Siguroddur Pétursson
Hin hliðin – Páll Bragi Hólmarsson
Hin hliðin – Sigríður Pjetursdóttir
Hin hliðin – Pjetur Nikulás Pjetursson
Hin hliðin – Fjóla Viktorsdóttir
Hin hliðin – Sigurður Sigurðsson
Hin hliðin – Halldór Victorsson
Hin hliðin – Bríet Guðmundsdóttir
Hin hliðin – Óli Pétur Gunnarsson