Einn af stofnendum Stuðlabandsins

  • 9. desember 2021
  • Fréttir
Gísli Guðjónsson
Hin hliðin - Gísli Guðjónsson

Hin hliðin heldur áfram hér á Eiðfaxa þar sem við fáum að kynnast nýjum hliðum á hestafólki um land allt. Að þessu sinni er komið að fyrrum ritstjóra Eiðfaxa, Gísla Guðjónssyni.

 

Fullt nafn: Gísli Guðjónsson

Gælunafn: Það er nú yfirleitt Gísli Guðjóns. Hef nú samt heyrt nöfn eins og Gilli, Gilbert og Gillespie, ekkert af því hefur sem betur fer fest við mig!

Fæðingardagur og ár: 12.september 1989

Hjúskaparstaða: Trúlofaður og í sambúð með Rakel Nathalie Kristinsdóttur

Menntun: Búfræðingur, Búfræðikandítat (B.sc í Búvísindum) auk þess að hafa klárað fyrsta árið við Háskólann á Hólum við hestafræðideild.

Starf: Íslenskukennari við Fjölmenningardeild í Vallaskóla á Selfossi

Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór: Bóndi… og ætla mér enn!

Hestamannafélag: Sleipnir

Stjörnumerki: Meyja

Skónúmer: 44

Hvernig bíl áttu: Toyota Land Cruiser og Toyota Auris eru til á mínu heimili

Klukkan hvað ferðu á fætur: 07:15

Uppáhalds árstími: Hver og ein árstíð hefur sinn sjarma en haustið er minn tími.

Te eða kaffi: Kaffi

Hvað viltu í bragðarefinn þinn: Mars, Oreo og jarðarber

Uppáhalds drykkur: Kaffi, Vatn og í fullorðinsdeildinni er það tvöfaldur Hendrick’s gin í tonic, gúrka og pipar.

Uppáhaldsmatur: Er nánast alæta á mat en lambalæri kemur fyrst upp í hugann.

Uppáhalds matsölustaður: Kaffi Krús á Selfossi

Besta lyktin: Nýslegið gras og svitalykt af hrossum í hestaferð að sumri!

Versta lyktin: Nálykt

Bað eða sturta: Sturta!

Þín fyrirmynd: Allir þeir sem eru heiðarleigir, samkvæmir sjálfum sér og kurteisir. Ber mikla virðingu fyrir þeim sem þora að fylgja sinni sannfæringu og standa við það sem þeir segja á sama tíma og það er fátt meira töff en að vera nógu sterkur karakter til að viðurkenna að maður hafi haft rangt fyrir sér. Undirferli og ókurteisi eru höfuðsyndir, að mínu mati!

Lífsmottó: Koma fram við aðra eins og þú vilt láta koma fram við þig.

Í hverju varstu lélegastur/lélegust í skóla: Held að það verði að skrifast á Dönsku. Áhuginn kannski ekki að hjálpa, á þeim tíma.

Í hverju varstu bestur/best í skóla: íþróttir og tónmennt .

Uppáhalds sjónvarpsþáttur: Ekki mikill sjónvarpsþáttamaður. Horfi þó á allar íþróttir og þá kemur upp í hugan Körfuboltakvöld á Stöð2Sport, besti umfjöllunarþáttur landsins og Kjartan Atli ber höfuð og herðar yfir aðra sjónvarpsmenn.

Uppáhalds leikari: Gísli Halldórsson, heitinn.

Uppáhalds Íslenski  tónlistarmaðurinn: Ásgeir Trausti, Valdimar, Bubbi og Hjálmar.

Uppáhalds erlendi tónlistarmaðurinn: Sia

Uppáhalds lag: Mismunandi eftir dögum, núna er það lagið Kona með Hjálmum

Hvaða lag kemur þér alltaf í stuð: September með Earth, Wind & Fire

Fyndnasti Íslendingurinn: Ari Eldjárn

Uppáhalds staður á Íslandi: Hálendið eins og það leggur sig.

Fallegasti staður sem þú hefur komið á: Laxárgljúfur á Flóamannaafrétti.

Hvað finnst þér vanmetið: Góðmennska

En ofmetið: Fólk sem telur sig betra en aðrir.

Uppáhalds lið í íslenska boltanum: Selfoss

Uppáhalds lið í enska boltanum: Liverpool

Efnilegasti hestamaður/kona landsins: Við eigum efnilega hestamenn í þúsundatali og á öllum aldri. Því skal haldið til haga að það að standa sig vel í keppni eða á kynbótabrautinni gerir þig ekki að góðum hestamanni, þar kemur svo margt annað mikilvægara inn í. Ég ætla því að segja að allir þeir sem eru tilbúnir að læra af öðrum hestamönnum og hestinum sjálfum séu efnilegastir.

Fallegasti hestamaður/kona á Íslandi: Rakel Nathalie Kristinsdóttir og Guðrún Katla Gísladóttir

Besti knapi frá upphafi: Það voru forréttindi að fá að vera í tvo vetur í kringum og í tímum nær daglega hjá Reyni Aðalsteins. Hann fær mitt atkvæði, sannur hestamaður.

Mesti gæðingur allra tíma að þínu mati: Þegar stórt er spurt… Kýs að svara þessu á þá leið að það væri hægt að búa til hinn fullkomna hest með því að taka það besta frá nokkrum stórkostlegum úr ræktunarsögunni.

Besti hestur sem þú hefur prófað: Hef fengið að prófa nokkur góð hátt dæmd hross bæði stóðhesta og hryssur. Besti hestur sem ég hef prófað er þó gamall höfðingi sem til var í Árbæjarhjáleigu sem hét Gyrðir frá Skarði. Komst á bak honum þegar hann var orðinn rúmlega tvítugur. Þvílík mýkt og gæði á tölti.

Ef þú fengir að eiga einn hest, lífs eða liðinn, hvern myndir þú velja og af hverju: Myndi velja mér einhverja vel ættaða unghryssu láta temja hana þjálfa og sýna. Kynnast henni svo vel sjálfur. Taka svo til við það að para hana við stóðhesta út frá eigin innsæi og ágiskunum, myndi svo bíða spenntur eftir útkomunni og hvort að maður hefði eitthvert vit á þessu.

Fyrir utan hestamennsku, fylgist þú með öðrum íþróttum: Alæta á íþróttir! Íslenskur hand- og körfubolti og enska úrvalsdeildin í fótbolta þó klárlega efst á blaði.

Við hvað ertu hrædd/ur: Að missa þá sem standa mér næstir.

Mest óþolandi keppandi sem þú hefur mætt: Guðbjörn Tryggvason. Getur orðið dýrvitlaus, tapsár og óþolandi í körfuboltanum í Þingborg. Hann er reyndar að róast í skapinu þegar ég hugsa út í það.

Sætasti sigurinn: Þegar ég fékk þá tilkynningu að hafa náð kynbótadómaraprófi FEIF eftir háskólanám og mikinn undirbúning í nokkur ár. Algjör forréttindi og á sama tíma mikil ábyrgð að starfa í þeim góða hópi.

Mestu vonbrigðin: Að vera ekki orðinn bóndi.

Stóðhestabókin eða Hrútaskráin: Bæði betra. Stóðhestabókinni þó flett oftar.

Mesta afrek þitt í lífinu: Að eignast heilbrigða og fallega dóttur.

Besta ráð sem þér hefur verið gefið: Telja upp að tíu áður en þú tjáir þig. Mjög mikilvægt.

Hvað er það síðasta sem þú gerir áður en þú ferð að sofa: Kyssi Rakel góða nótt.

Vandræðalegasta augnablikið: Þegar ég og áður nefndur Guðbjörn fundum loksins “sundlaug” þar sem hægt væri að komast í heitan pott þegar við störfuðum við tamningar í Þýskalandi. Skelltum okkur sigurreifir í pottinn í viðeigandi klæðnaði, sundskýlu. Skyldum ekkert í því þegar hver sundlaugargesturinn á fætur öðrum gáfu okkur fyrirlitngarsvip og stigu upp úr pottinum kviknaktir. Við skyldum ekkert í þessu en nokkru síðar þurftum við að yfirgefa laugina og var tilkynnt það að hér væru allir naktir og það væri litið á það sem bölvaðan perraskap að vera eingöngu komnir til þess að horfa á aðra.

Ætlar þú á Landsmót 2022: Að sjálfsögðu! Ef ekki þangað, hvert þá??

Hvaða þrjá hestamenn tækir þú með þér á eyðieyju: Þorvald Kristjánsson, alltaf léttur og lausnamiðaður. Arnar Bjarka Sigurðarson, til þess að hanna tækni til þess að koma okkur aftur í land og Hjörvar Ágústsson sem myndi sjá um (með sinni ofvirkni) að afla matar og halda okkur uppteknum.

Sturluð staðreynd um sjálfa(n) þig: Stofnaði ásamt mínum vinum hið rómaða ballband Stuðlabandið og sló þar á bassann í 7 ár.

Hvaða hestamaður hefur komið þér mest á óvart eftir að þú kynntist honum/henni og af hverju: Elsa Albertsdóttir. Var það heppin að dæma nokkuð mikið með henni síðasta sumar. Hún er skemmtilegur og sanngjarn samstarfsmaður auk þess að hafa óþrjótandi þekkingu á hrossum.

Ef þú fengir eina spurningu til að spyrja hvern sem er, hver yrði spurningin og hvern myndir þú spyrja: Myndi vilja hitta ömmu mína, Ingveldi á Brúnastöðum,og spyrja hana hvernig hún hefði farið að því að eignast sextán börn, koma þeim öllum til manns og rúmlega það.

Hvað ætlar þú að gera um helgina: Rakel er alltaf með allt skipulagt. Skulda nú þegar það að hengja upp jólaseríur á húsið, skrifa jólakort og klára jólagjafainnkaup. Kemst vonandi eitthvað á hestbak líka.

Ég skora á kollega minn og félaga, Heimi Gunnarsson, að leyfa okkur að skyggnast á bak við tjöldin.

 

 

 

Hin hliðin – Hrafnhildur P Þorsteinsdóttir

Hin hliðin – Sylvía Sigurbjörnsdóttir

Hin hliðin – Telma L. Tómasson

Hin hliðin – Hulda Gústafsdóttir

Hin hliðin – Hulda Jónsdóttir

Hin hliðin – Eygló Arna Guðnadóttir

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar